Netfyrirtæki á borð við dropship verslanir geta notið góðs af nýjustu tölfræði um innkaup á netinu. Covid heldur áfram að hafa áhrif á markaði, meðal annars á aukna sölu í netverslunum samhliða auknum fjölda fólks sem verslar í gegnum snjallsíma.
Omicron faraldurinn hefur einnig valdið vandræðum, enda segja sérfræðingar að innkaup feli í sér mestu hættuna á Covid-smiti utan heimilis (inews, 2022). Breskir vísindamenn hafa bent á að verslanir hafi víðtækari áhrif á útbreiðslu vírusins en kvikmyndahús, barir og íþróttaviðburðir, óháð því hvaða takmarkanir eru til staðar í samfélaginu.
Lestu 10 tölfræðiatriði um netverslanir og skoðaðu kosti þess að selja til neytenda í gegnum netið.
3 af hverjum 5 netnotendum hafa verslað á netinu.
Tölfræði frá DataReportal sýnir að 58,2% netnotenda á aldrinum 16-64 ára á heimsvísu keyptu vöru eða þjónustu á netinu í septembermánuði 2021. Í stað þess að vera innan um mannþröng í verslanamiðstöðvum eða þurfa að skreppa frá vinnu á verslunartíma, velja æ fleiri að nýta sér netið til innkaupa.
Fleiri versla í snjallsímum
Hlutdeild snjallsímavafra á heimsvísu í heildarnetverslun ársins 2021 var 70%, skv. könnun Statista. Sífellt fleiri hafa aðgang að símum sem geta tengst netinu og notað smáforrit og því er mikilvægt að netfyrirtæki hanni heimasíður sínar með snjallsímaviðmót í huga. Á svæðum þar sem uppbygging stafrænnar þjónustu er stutt á veg komin, eru snjallsímar jafnvel eini möguleiki fólks til að komast á netið og því stefnir í að enn fleiri muni nota snjallsíma sem sinn aðalaðgang að netinu, frekar en borðtölvur.
Farsímanotendum fjölgar
Á 12 mánuðum frá 2020 til 2021 fjölgaði farsímanotendum um 2,3%. Það eru 117 milljónir notenda, eða tæplega 10 milljónir nýir notendur á heimsvísu í hverjum mánuði, skv DataReportal.
Í öllum heiminum nam heildarfjöldi farsímanotenda 5,27 milljörðum árið 2021, sem eru ca 67% af Jarðarbúum.
X-kynslóðin og þúsaldarkynslóðin leiða fjöldann
Hæsta hlutfall netnotenda sem versla á netinu eru á bilinu 25-54 ára (79%) og yngsti aldurshópurinn 16-24 ára (78%) er næstfjölmennasti hópurinn. Þessi tölfræði frá Eurostat, 2020, gefur til kynna að það séu ekki einungis yngri kynslóðir sem versla á netinu. X-kynslóðin (fædd 1965-1980) og þúsaldarkynslóðin (fædd 1981-1996) er sá hópur sem nýtir sér netið hvað mest til innkaupa. Þetta er gott að vita þegar kemur að því að velja vörur sem höfða til ákveðinna aldurshópa.
Fatnaður, heimilis- og garðvörur ásamt matvælum eru 3 efstu vöruflokkarnir
Í könnun Eurostat um netverslun í ESB löndum sem gerð var árið 2020, voru þrír vinsælustu vöruflokkarnir: fatnaður (63%), heimilis- og garðvörur (29%) og heimsendingar frá veitinga- og skyndibitastöðum (28%). Þar á eftir komu snyrti- og heilsuvörur (27%), bækur, tímarit og dagblöð (26%) og raftæki eins og tölvur, spjaldtölvur og farsímar (26%).
Viðskiptavinir eru líklegri til að kaupa þegar boðið er upp á ókeypis sendingu
Samkvæmt könnun DataReportal frá 2021, segja 51% viðskiptavina að þeir séu líklegri til að ganga frá kaupum ef kostnaðarlaus sending er í boði. Afsláttarkóðar eru næstalgengasta freistingin til að kaupa (40%), þar á eftir koma umsagnir frá öðrum viðskiptavinum (33%) og einföld skilastefna (32%). Svona ívilnanir fyrir netkaupendur geta skipt máli fyrir sölutölurnar.
Kaupendur lesa allt að 6 umsagnir áður en þeir kaupa vöruna
Viðskiptavinurinn hefur ferðalagið í átt að kaupunum á því að leita að vörum sem hann gæti haft áhuga á og notar netið til að finna hugmyndir og innblástur. Rannsókn sem gerð var af Statista 2021 leiddi í ljós að helmingur netnotenda notaði Amazon og leitarvélar sem sitt fyrsta skref í leit að vöru sem var á endanum keypt. Mikill meirihluti netneytenda les líka allt að sex umsagnir áður en ákvörðun um kaup er tekin.
71% netnotenda eru líklegri til að kaupa vöru eftir að hafa séð hana á samfélagsmiðlum
Æ fleiri verða einnig fyrir áhrifum af Instagram og TikTok veitum, en 7 af hverjum 10 hafa keypt vöru sem þeir hafa séð á samfélagsmiðlum. Gögn frá GlobalWebIndex gefa þannig til kynna að góð viðvera á vinsælustu samfélagsmiðlum geti skilað umtalsverðum hagnaði.
Tölur frá LicenceGlobal sýna svipaða þróun hjá kaupendum í Bandaríkjunum. Samkvæmt könnun þeirra telja 87% Norður-Ameríkubúa að samfélagsmiðlar hafi áhrif á og ýti undir kaupákvörðun.
Þúsaldarkynslóðin er líklegri til að kaupa vöru sem kynnt er af áhrifavaldi
Í könnun InfluencerMarketingHub frá 2021 kom í ljós að svokallaðir áhrifavaldar höfðu hvað mest áhrif á þúsaldarkynslóðina og Z-kynslóðina sem kemur þar á eftir. Tæp 84% af svarendum úr þúsaldarkynslóðinni viðurkenndu að notendaframleitt efni á netinu hefði áhrif á hvernig þeir eyða peningum.
80% Instagram notenda fylgja minnst einum fyrirtækjareikningi
Með yfir milljarð virkra notenda í hverjum mánuði er Instagram ansi öflugur vettvangur þegar kemur að rafrænum viðskiptum. Samkvæmt SearchEngineWatch, fylgja 80% Instagram notenda að minnsta kosti einum fyrirtækjareikningi. Netnotendur eru áhugasamir um að fylgjast með vörumerkjum sem þeir þekkja og hafa gaman af því að finna ný fyrirtæki sem áhrifavaldar merkja eða kynna sérstaklega. Instagram vinnur nú að því að auðvelda áhrifavöldum ferlið með því að bæta við myllumerkjum fyrir netverslun og greiðslumöguleikum fyrir einstaka pósta.