Það verða alltaf einhver mistök gerð þegar farið er af stað með nýjan rekstur. Það er hluti af leiknum. Þrátt fyrir það er hægt að undirbúa sig undir það að takast á við mistökin þegar þau gerast með góðum markaðsrannsóknum og kynna sér hvernig aðrir hafa gert hlutina. Dropship getur verið arðsamur rekstur en ekki gera ráð fyrir hnökralausri vegferð. Lestu þessa grein til þess að forðast gildrurnar á veginum.
1. Að henda peningum í greiddar auglýsingar.
Mistökin eru þau að eyða fjármunum í auglýsingar án þess að gera sér grein fyrir árangrinum af þeim. Óvandaðar auglýsingaherferðir geta étið upp það fé sem var ætlað í markaðssetningu án þess að skila miklu til baka í kassann. Hvað eru greiddar auglýsingar? Þetta eru t.d. leitarniðurstöður á Google og auglýsingar á samfélagsmiðlum á borð við Facebook og
Instagram, sem sjást í fréttaveitum notenda. Fyrirtæki geta nýtt sér þessa möguleika til að koma upplýsingum fljótt til neytenda og lokka þá inn á síðurnar sínar.
Samkvæmt SERP Watch 2021 smella næstum 65% fólks á Google auglýsingar. Þegar greiddar auglýsingar eru notaðar á réttan hátt eru þær frábær leið til að vekja athygli á vörumerkinu þínu og auka vinsældir. Mistökin eru þau að henda sér í auglýsingagerð án þess að huga að smáatriðum.
Þegar fjármunir eru settir í óskipulagðar auglýsingar án áætlunar, hvar sem þær birtast á netinu, getur farið illa og þú setið eftir með sárt ennið. Það er ástæða fyrir því að auglýsingastofur græða mikið! Auglýsingar ættu að vera úthugsaðar; hafa ástæðu, góða myndræna hönnun, vandaðan texta og vera vel tímasettar.
Það eru til margar sögur af ógöngum dropship seljenda sem lögðu allt sitt í auglýsingaherferðir strax í upphafi rekstursins. Flestir þeirra hugsa það sama: eyða peningum til að græða peninga. En ef ekki er farið vandlega yfir tilgang og markmið með auglýsingunni og ef ekki er vandað til verka þegar kemur að tenglum og texta, er alls ekki víst að auglýsingin gefi nokkuð af sér.
2. Vafasöm námskeið um efni sem tengjast netverslunum
Þetta er annað algengt vandamál sem poppar oft upp á internetinu. Að bíta á agn dropship "gúrúa" sem selja námskeið í skyndigróða. Þetta á auðvitað við fleiri svið en dropship rekstur, svindlarar fyrirfinnast alls staðar þar sem frumkvöðlar halda sig. Þar sem stafræn markaðssetning og netviðskipti hafa verið í aukinni sókn hefur reynst auðvelt að svindla á nýliðum í greininni og þeim sem hafa ekki þeim mun betra viðskiptavit. Þeir herja á frumkvöðla sem hafa von, spennu og hugsjón fyrir fyrirtækjastofnun.
Það getur reynst erfitt að sjá svindlarana úr fjarlægð, margir þessara dropship gúrúa hafa útbúið faglega uppsettar heimasíður og blogg sem poppa upp í leitarniðurstöðum þegar nýliðar fara af stað í upplýsingaöflun. En hvað er að þessu efni? Jú, námskeiðin eru oft kynnt með fullyrðingum og loforðum um milljónagróða á innan við ári, eða einhverju álíka. Námskeiðin eru verðlögð hátt en innihalda efni sem hægt er að nálgast fyrir mun lægri upphæðir og jafnvel ókeypis sem
netnámskeið frá heiðvirðum stofnunum.
Við mælum með því að forðast þessa sjálfskipuðu sérfræðinga á sviðinu og skrá þig hjá traustum námsveitum. Vertu alltaf á varðbergi þegar um kostnað er að ræða og kannaðu hvort sömu upplýsingar eru aðgengilegar annars staðar með lægri tilkostnaði.
3. Að gera ekki viðskiptaáætlun
Að henda sér út í djúpu laugina getur þýtt að ekki er vandað til verka og að horft sé framhjá ýmsum gagnlegum upplýsingum. Viðskiptaáætlun.
[hlekkur á "hvernig á að skrifa viðskiptaáætlun"]er stundum talin vera formlegt og hefðbundið skjal sem er aðeins þörf á þegar sótt er um lán. Það er ekki rétt. Viðskiptaáætlun er afar gagnlegt verkfæri í öllum nýjum rekstri, hvort sem þörf er á fjármögnun eða ekki.
Það eru margir kostir við að skrifa viðskiptaáætlun þegar lagt er upp í dropship rekstur. Áætlunin er arkitektúrinn fyrir fyrirtækið og grunnurinn að starfseminni. Hún leiðir þig í gegnum fyrstu skrefin og að fyrstu sölunni. Til þess að gera góða áætlun þarftu að gera þínar eigin markaðsrannsóknir og verkefnalýsingar og setja fyrirtækinu markmið. Ofurspenntir dropship seljendur gleyma oft að huga að þess háttar smáatriðum, þeir vilja bara setja í gang og selja vörur!
Gefðu þér góðan tíma og leggðu þig fram við rannsóknir og skipulagningu. Viðskiptaáætlun dregur úr líkum á smámistökum og setur upp leiðbeiningar fyrir hvert svið rekstursins.
4. Að gefast upp við fyrstu hindrun.
Það er engin niðurlæging í því að hætta rekstri. Það er erfitt að stofna nýtt fyrirtæki og það felast margs konar áskoranir í því að koma á fót rekstri á netinu. Orsakirnar geta verið allt frá ófyrirsjáanlegum ytri atburðum til mistaka við vöruval. Ef upp koma óvænt og/eða kostnaðarsöm vandamál getur eina leiðin í stöðunni verið að hætta.
Það geta hins vegar verið stór mistök að gefast upp við minnsta mótlæti. Þess vegna er þemað í þessari grein áætlanagerð, áætlanagerð, áætlanagerð. Það er gott að vera með það skipulagt og skjalfest hver markhópurinn er, hvernig þú ætlar að ná til hans og hvernig þú ætlar að hanna vefverslunina með þarfir notenda í huga. Það er líka gott að reyna að sjá vandamálin fyrirfram og vera með lausnir tiltækar í skriflegu formi.
Hvernig geturðu til dæmis leyst úr málum ef vandinn er að varan er lengi að berast til viðskiptavina? Hvernig bregstu við ef vefsíðan þín hrynur? Hvernig bregstu við viðskiptavinum sem vilja fá endurgreitt? Reyndu að koma auga á þau vandamál sem líklegt er að gætu komið upp þegar verslunin er komin á skrið. Þú verður betur í stakk búin/n að takast á við raunveruleg vandamál í kjölfarið.
Þolinmæði, þrautsegja og
úthald eru allt góðir kostir þegar kemur að starfi frumkvöðla og eru nauðsynlegir þættir í farsælum rekstri.
5. Að setja upp ófaglega vefsíðu
Fyrirtæki á borð við Amazon, eBay og ASOS, að ekki sé talað um þekkta vöruframleiðendur og ofurmarkaði á borð við Walmart, Sainsbury's og Tesco, hafa umbylt væntingum neytenda til netverslunar. Fólk er orðið vant því að sjá faglega hannaðar vefsíður með hágæða innihaldi.
Með það í huga, er mikilvægt að vanda vel til verka við hönnun og uppsetningu heimasíðunnar. Tölfræði frá WebFX sýnir að 94% neytenda nefna útlit vefsíðu sem það sem þeir taka fyrst eftir. Neytendur þurfa að finna ástæðu til þess að versla við þig en ekki keppinautana.
Þetta getur varðað einföld atriði á borð við hvaða sniðmát er valið fyrir síðuna eða hvernig myndræn framsetning skilar sér. Nýttu þér ókeypis ráðgjöf um heimasíðuuppsetningu á netinu eða finndu áhugavert og ódýrt námskeið um hönnun og markaðssetningu. Vertu í það minnsta viss um að aðalvalmyndin sé aðgengileg og að undirflokkar komi skýrt fram.
Þessi litlu atriði hafa gríðarleg áhrif á þá mynd sem neytendur fá af síðunni þegar hún er heimsótt í fyrsta sinn.
6. Slæmur texti
Þetta er meðal þess sem fær fólk til að loka vefsíðunni þinni án þess að skoða hana nánar. Illa skrifaður texti með mál- og stafsetningarvillum gefur til kynna kæruleysi og jafnvel skeytingarleysi gagnvart viðskiptavininum. Viðskiptavinurinn er líklegur til þess að sjá það sem merki um að fyrirtækinu sé ekki treystandi og leita annað.
Ef þú treystir þér ekki sjálf/ur til þess að skrifa góðan texta fyrir síðuna geturðu íhugað að ráða textahöfund í lausamennsku til að sjá um skrif fyrir auglýsingar, vefsíðu, blogg og samfélagsmiðla. Góður texti gerir meira en margir gera sér grein fyrir til að öðlast traust viðskiptavinarins og hækka álit hans á fyrirtækinu.
Rétt eins og neytendur eru orðnir vanir vel hönnuðum heimasíðum sem auðvelt er að skoða, eru þeir líka vanir vönduðum texta. Flestir eiga auðvelt með að sjá muninn og ef textinn er slæmur er líklegt að fólk sjái síðuna þína sem ófaglega og/eða óekta. Mundu að traust viðskiptavinarins skiptir öllu í netviðskiptum. Síðan ætti að sýna heiðarleika, fagleg vinnubrögð og bera með sér að um sé að ræða ekta fyrirtæki.
7. Að vinna ekki heimavinnuna
Það er raunar hægt að setja flest mistök í upphafi fyrirtækjareksturs undir einn hatt: Skortur á undirbúningi og heimavinnu. Án undirbúnings ertu eingöngu undirbúin/n fyrir mistök. Með þessu eigum við ekki við að þú þurfir að klára diplómunám í viðskiptafræðum eða safna prófskírteinum frá netnámskeiðum áður en þú stofnar fyrirtæki. Þú þarft aftur á móti að taka þér tíma til þess að gera nauðsynlegar markaðsrannsóknir, læra á viðskiptaumhverfið og gera áætlanir. Þannig leggurðu grunninn að velgengni fyrirtækisins.
Lokaorð
Við vonum að þessi grein hafi gefið þér góð ráð og upplýsingar um atriði sem þú vissir ekki fyrir. Ef við tökum þetta stuttlega saman, eru 7 ástæður helstar fyrir því að dropship rekstur heppnast ekki:
1. Að henda peningum í greiddar auglýsingar.
2. Greiða fyrir vafasöm námskeið
3. Að gera ekki viðskiptaáætlun
4. Að gefast upp við fyrstu hindrun
5. Að setja upp ófaglega vefsíðu
6. Slæmur texti
7. Að vinna ekki heimavinnuna
Tengdar greinar:
Að gera viðskiptaáætlun fyrir dropship rekstur
[HLEKKUR Á "ÁBENDINGAR TIL AÐ BYGGJA UPP VÖRUMERKIÐ ÞITT"]
[HLEKKUR Á "BYRJENDAHANDBÓKINA Í DROPSHIPING"]