Öll þekking er mikils virði þegar lagt er upp í stofnun fyrirtækis og það á einnig við um netverslun og netmarkaðssetningu. Námskeið í þessum þáttum fara yfir allt frá grunnatriðum netviðskipta og upp í nýjustu stafrænu trendin í verslunarheiminum.
Stafræn markaðssetning er í sífelldri endurnýjun eftir því sem tækninni fleygir fram. Netið er í stöðugri sókn en hvernig neytendurnir nota það í markaðslegum tilgangi, breytist frá ári til árs. Vitneskjan um það hvernig netverslanir viðskiptavinir nýta sér, hvar er best að auglýsa og hvernig er hægt að hámarka söluhlutfall er meðal þess sem farið er yfir á netmarkaðsnámskeiðum.
Góð ráð um val á námskeiði:
Skoðaðu vel hver eða hverjir kenna á námskeiðinu.
Skoðaðu umsagnir
Íhugaðu hvort þú vilt fara á viðurkennt námskeið
Hversu mikinn tíma hefurðu til að sitja námskeið?
Er efni námskeiðsins það sem þú þarft að læra á þessari stundu?
Námskeið gegn gjaldi
Netviðskiptanámskeið eru góð fjárfesting, sér í lagi fyrir þá sem þurfa að fara vel ofan í efnið og vilja hafa skírteini með viðurkenningu á því að hafa staðist námskeiðið. Hér að neðan er listi fyrir nokkra aðila sem bjóða upp á yfirgripsmikil netviðskiptanámskeið fyrir þau sem eru tilbúin að greiða fyrir:
1. Chartered Institute of Marketing (CIM)
CIM er alþjóðlega viðurkennd stofnun og skírteini frá CIM eru tekin alvarlega í viðskiptaheiminum. Þar er hægt að taka námskeið í öllu frá grunnatriðum stafrænnar markaðssetningar upp í diplómunám í markaðsfræðum. Verð fyrir námskeiðin er frá £220, en einnig þarf að greiða £65 skráningargjald. CIM er staðsett í Bretlandi en býður netnámskeið fyrir þau sem búsett eru utan Bretlands.
2. Digital Marketer
Digital Marketer þykir einn traustasti námskeiðshaldarinn í bransanum. Fyrirtækið er staðsett í Bandaríkjunum og býður upp á fjölbreytt námseið í netviðskiptum og stafrænni markaðssetningu. Stofnandinn, Ryan Deiss, er m.a. höfundur bókarinnar Digital Marketing for Dummies. Verð fyrir námskeið er frá $ 495 fyrir vottuð námskeið og framhaldsnámskeið.
3. Udemy
Udemy er með höfuðstöðvar í Bandaríkjunum og býður upp á frábært úrval af netviðskiptanámskeiðum. Verð fyrir námskeið er frá €14,99 og eru þau afar gagnleg til að læra um nýjustu framþróun í netverslun. Udemy námskeiðin eru ekki viðurkennd námskeið en ef ætlunin er að öðlast þekkingu til eigin nota kemur það ekki að sök.
4. SkillShare
Á SkillShare má finna yfir 850 námskeið sem tengjast netviðskiptum á einhvern hátt. Fyrirtækið sjálft er staðsett í Bandaríkjunum en allir geta nýtt sér netnámskeiðin þeirra, sem spanna allt frá stuttum kennslumyndböndum og upp í 8 tíma fyrirlestralotur. Þarna er frábært tækifæri til að styrkja sig á tilteknum sviðum með stuttri en hnitmiðaðri fræðslu um afmarkað efni. Aðild að SkillShare kostar $32 á mánuði eða $168, ef keypt er ársaðild.
5. edX
Harvard og Massachusetts Institute of Technology (MIT) hafa tekið höndum saman og komið upp námsefnisveitunni edX sem býður upp á námskeið við virta háskóla um allan heim, þar á meðal Háskólann í Edinborg, Berkeley og Hong Kong Háskóla. Margvísleg námskeið í netviðskiptum eru í boði og kosta á bilinu €300 - €1,500.
Ókeypis námskeið
Dýrara þýðir ekki endilega betra og það er hægt að finna heilmikið af efni frá virtum og viðurkenndum aðilum án þess að taka fram kortið. Hér eru nokkur af bestu ókeypis netviðskiptanámskeiðunum sem við höfum fundið á netinu:
1. Google Digital Garage
Ein af bestu ókeypis netnámskeiðaveitunum er Google Digital Garage. Þar má finna námskeið á borð við „Grundvallaratriði stafrænnar markaðssetningar“, sem er vottað námskeið á vegum Interactive Advertising Bureau Europe og The Open University. Flettu neðst á vefsíðuna til að velja rétt land.
2. Google Skillshop
Annar frábær ókeypis námskeiðavettvangur frá Google er Skillshop. Þar má læra betur á Google tól á borð við Google Marketing Platform, Google Ads og Analytics Academy.
3. HubSpot Academy
HubSpot selur markaðs- og söluhugbúnað í Bandaríkjunum en er einnig þekkt fyrir vandað og ókeypis fræðsluefni um netmarkaðssetningu. Á HubSpot Academy finnurðu fjölda stuttnámskeiða sem taka ekki meira en 4 klukkustundir að fara í gegnum. Þessi námskeið henta einkar vel fyrir hinn upptekna frumkvöðul.
4. Shopify Learn
Shopify er vinsæll vettvangur fyrir netverslanir. Fyrirtækið er með aðsetur í Kanada og býður einnig upp á þjálfun í netviðskiptum sem miðast að byrjendum í bransanum í gegnum Shopify Learn. Meðal efnistaka eru SEO, markaðssetning með tölvupósti og Facebook auglýsingar.
5. Coursera
Coursera var stofnað af prófessorum við Stanford-háskóla árið 2012. Þar er búið að taka saman úrval námskeiða um netviðskipti á vegum topp námsstofnana. Listinn nær bæði yfir ókeypis námskeið (merkt sem 'course') og greidd námskeið en þau skiptast í verkefni undir leiðsögn, sérhæfingu, viðurkennd námskeið og MasterTrack skírteini.
6. Udemy
Við minntumst á Udemy hér að ofan en þar er einnig boðið upp á ókeypis fræðslu. Á 1-3 klukkustundum geturðu lært að setja upp netverslun með Shopify eða WordPress eða setja upp heimasíðu með Wix.
7. edX
Annar aðili sem við höfum áður minnst á er edX og þó við mælum heilshugar með greiddum námskeiðum á þeirra vegum, verður það að segjast sem er, að edX býður upp á stórgott úrval af ókeypis efni. Kynntu þér markaðsaðferðir á netinu, grundvallaratriði markaðssetningar og stafræna áætlanagerð án nokkurs kostnaðar.
8. Alison
Alison var stofnað á Írlandi og er ókeypis fræðsluvettvangur. Að námskeiði loknu er hægt að greiða fyrir vottað skírteini um námið. Einnig er í boði að sitja diplómunámskeið. Meðal efnistaka eru dropship módelið og stafræn markaðssetning.