Textaskrif fyrir dropship seljendur

dropshippingxl intro blog

Skrifaður texti er eitt af bestu verkfærunum sem hægt er að nota til þess að fá viðskiptavininn til að kaupa vörur í netversluninni þinni.

Með skrifuðum texta er átt við allan texta sem birtist á vefsíðunni og í kynningar- og auglýsingaefni. Þess konar texti er oft kallaður sannfæringartexti eða sölutexti. Vissir þú að það eru til markvissar aðferðir til þess að skrifa texta fyrir internetið?

Það besta er að það þarf ekki að hafa gráðu í blaðamennsku, stafrænni markaðssetningu eða skapandi skrifum til þess að gera það vel.

12 leiðir til að skrifa góðan sölutexta

1. Notaðu einfalt mál

Vissir þú að fólk les ekki texta á netinu? Rannsókn sem Nielson Norman Group framkvæmdi sýndi að netnotendur eru líklegri til þess að skanna textann eftir lykilorðum en að lesa hann orð fyrir orð. Þessi hegðun hefur ekki breyst á þeim 23 árum sem fyrirtækið hefur stundað rannsóknir!

Þess vegna er best að hafa textann einfaldan og hnitmiðaðan. Setningarnar ættu að vera stuttar og auðlesnar. Upplýsingar þurfa að vera skýrar og markvissar.

Í stað þess að skrifa eitthvað á borð við "þessi vara er mögulega eitthvað sem mæður geta nýtt sér" skaltu setja aðalatriðin í fá orð: "varan er tilvalin fyrir mæður." Leyfðu orðunum að tala.

2. Mótaðu texann eftir talmáli, ekki ritmáli

Texti sem fer á internetið er langt frá texta sem skrifaður er fyrir bækur, tímarit eða fræðsluefni. Það sem kemst einna næst nettexta eru dagblöð. Texti í dagblöðum er hnitmiðaður, tiltekur aðalatriði og er skrifaður í stuttum setningum sem flæða vel.

Forðastu að nota fræðimál eða langt og uppskrúfað mál. Tónninn í textanum ætti næstum að vera eins og spjall milli vina. Það skapar traust hjá viðskiptavininum og tengsl við lesandann.

Því auðveldara sem það er fyrir gesti vefsíðunnar að skilja á skjótan hátt hver þú ert og hvað þú selur, því líklegra er að þeir staldri við, skoði vörur og kaupi.

3. Grípandi fyrirsagnir

Fyrsta línan í textanum - fyrirsögnin - er mikilvægust!

Hugsaðu aftur um dagblaðastílinn. Hvaða hluti forsíðunnar fangar athyglina? Fyrirsögnin. Öflug og lífleg fyrirsögn lokkar lesandann til að halda áfram. Dagblöð setja gjarnan mynd af forsíðunni eða skrifa aðalfyrirsögn dagsins á blaðastanda. Þetta er gert til þess að vekja áhuga vegfarenda og fá þá til þess að kaupa eintak.

Fyrirsögn á netinu ætti að virka eins. Fyrirsögnin getur skilið á milli þess hvort lesandinn fær áhuga á efninu eða ekki. Skrifaðu því skapandi fyrirsagnir, reyndu að skara fram úr fjöldanum og vekja eftirtekt.

Sem dæmi um áhugaverðar fyrirsagnir getum við nefnt vefsíðu World Wildlife Fund. "Átta dýrategundir styrkja stöðu sína" vekur von, virðingu fyrir starfi vörumerkisins og áhuga á að vita hvaða tegundir eru í minni útrýmingarhættu.

4. Segðu sögu

Ertu ekki komin/n með dagblaðalíkinguna á hreint? Góðar sögur selja. Fólki finnst notalegt að heyra, horfa á og lesa grípandi sögu og þess vegna er kvikmynda-, tónlistar- og afþreyingariðnaðurinn svo blómlegur.

Í stað þess að birta lista af upplýsingum á hverri síðu vefverslunarinnar er hægt að nota frásagnarstíl til að ná til lesenda. Þetta gæti verið sagan af uppruna fyrirtækisins eða sögur frá viðskiptavinum um vörurnar þínar.

Þarna er hægt að nota hugarflugið á smekklegan hátt og ná enn betur til viðskiptavina. Sögur geta líka verið hluti af vörumerki og ímynd fyrirtækisins.

Airbnb er dæmi um vel heppnuð söguskrif. Í bréfi frá stofnendum eru lesendur dregnir inn í söguna á bak við Airbnb og hvernig fyrirtækið upplifði COVID-19 heimsfaraldurinn. Textinn er vel skrifaður og nær til lesandans með persónulegum samræðutóni og auðmýkt.

5. Komdu þér upp formúlu fyrir texta

Það eru til margs konar formúlur sem geta hjálpað þér að skrifa góðan texta. Þær hjálpa þér að byggja textann upp þannig að lesandinn skilji tilgang hans.

Hér er eftirlætið okkar, AIDA, sem var þróað af bandarískum auglýsingastjóra, Elias St. Elmo Lewis, árið 1898. Heitið er skammstöfun á uppbyggingu textans:

  • Attention (athygli) - Settu vanda lesandans í orð
  • Interest (áhugi) - Lýstu vörunum þannig að lesandinn hrífist með
  • Desire (löngun) - Fangaðu áhuga lesandans
  • Action (aðgerð) - að lokum þarf lesandinn að vita hvernig hann kaupir vöruna þína
  • 6. Vertu trúverðug/ur

    Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir blogg og annars konar skrif á dropship vefsíðunni þinni. Þegar þú birtir greinar, tölfræði og iðnfréttir, til dæmis, vertu viss um að vísa til áreiðanlegra heimilda.

    7. Skiptu textanum upp í málsgreinar

    Þetta svipar til fyrsta atriðisins, sem snérist um að hafa textann knappan og skýran.

    Skiptu textanum upp í auðlesnar málsgreinar, það heldur athygli lesandans betur en langur, samfelldur texti. Meðallesandinn vill ekki eyða tíma í að leita sjálfur að upplýsingum í löngum texta. Eitt ráð er að byrja á því að skrifa það sem þú vilt að komi fram í textanum án þess að gefa setningalengd og uppsetningu gaum og laga textann til eftirá.

    Málsgreinar ættu helst ekki að vera lengri en 5 línur. Lengri málsgreinar draga úr löngun til að lesa þær og lesandinn þreytist.

    8. Millifyrirsagnir eru góð hugmynd

    Hafðu skipulag á textanum með millifyrirsögnum. Þær brjóta textann upp svo hann verður auðveldari aflestrar og hjálpa einnig til við SEO (leitarvélahámörkun).

    Hér sést vörulýsingarsíða Apple sem sýnir augnhreyfingar þátttakanda í rannsókn Nielson Norman Group, sem minnst var á hér að ofan. Taktu eftir því hvernig augað dvelur á feitletruðum millifyrirsögnum.

    9. Notaðu upptalningarlista

    Lesendur kunna að meta upptalningarlista, hvort sem þeim er skipt upp með númerum eða annars konar merkingum. Það er auðvelt að renna yfir þá í fljótheitum og ná aðalatriðum. Notaðu þess konar uppsetningu þegar þú skrifar um eiginleika vörunnar á borð við stærð, liti, efnivið o.þ.h.

    10. Haltu þig frá semíkommum

    Semíkommur þarf yfirleitt ekki að nota nema í bókmenntum eða akademískum skrifum. Setningar með semíkommu verða langar og erfiðari aflestrar og hafa áhrif á útlit textans.

    11. Ekki nota línujöfnun

    Hvað er átt við með því? Línujöfnun gerir allar línur í textanum þínum jafnlangan, óháð orðafjölda og lengd orða. Þetta gefur textanum snyrtilegt útlit en gerir auganu erfiðara fyrir við lesturinn. Hafðu textann alltaf vinstri-jafnaðan.

    12. Vertu með málfræðina á hreinu

    Vandið stafsetningu og málfar, sérstaklega í fyrirsögnum (og millifyrirsögnum). Kynntu þér reglur um stóra stafi, skammstafanir og algengar villur í íslensku máli.

    Geturðu nýtt þér þessar upplýsingar?

    Með þessum ábendingum ættirðu að geta skrifað auðlesinn og grípandi texta fyrir vefverslunina þína. Með því að tileinka þér rétta tækni við textaskrif, fær síðan þín meiri og jákvæðari athygli frá gestum. Blóm laða til sín býflugur með fallegum blómum, þú laðar til þín viðskiptavini með fallegum texta!

    Tengdar greinar:

  • 7 góð ráð fyrir persónulega markaðssetningu dropship verslunar
  • Hvernig er hægt að hefja dropship rekstur án heimasíðu?
  • 5 áhrifaríkar auglýsingaleiðir fyrir dropship verslunina þína
  • dropshippingxl intro blog