Hvatning heldur okkur gangandi í átt að þeim markmiðum sem við setjum. Sem fyrirtækjaeigandi er það þitt hlutverk að halda hlutunum gangandi en það getur stundum erfitt að halda í hvatninguna innra með sér í gegnum súrt og sætt. Hér á eftir ætlum við að stikla á stóru um hvað er hægt að gera til að hvetja sjálfa/n sig áfram samhliða farsælum verslunarrekstri.
Settu þér ákveðin markmið
Ef ætlunin er að setja upp farsælan dropship rekstur þurfa markmiðin að vera í samræmi við það. Settu upp þinn eigin mælikvarða fyrir velgengni svo þú sjáir svart á hvítu hvert þú stefnir; því stærra markmið, því meiri hvatning til að halda sig við efnið. Þess vegna má alveg hugsa stórt, því það er ekki bara hvatningin sem drífur áætlunina áfram, áætlunin kveikir líka á hvatningu og innblæstri um að gera betur.
Lærðu af mistökum þínum
Það er alltaf eitthvað sem fer úrskeiðis eða veldur vonbrigðum þegar lagt er upp í nýtt ævintýri og þannig er það líka með fyrirtækjarekstur. Það er þó fátt sem er óyfirstíganlegt ef maður veit hver stefnan er. Þess vegna er nauðsynlegt að horfast í augu við mistökin, læra af þeim og halda ótrauð/ur áfram. Líka þó það þurfi að breyta um taktík eða setja sér ný markmið. Öll mistök eiga það sameiginlegt að þau geta kennt manni hvernig hefði mátt gera betur. Líttu á mistökin sem endurgjöf á ákvarðanirnar sem leiddu til þeirra og einsettu þér að gera betur.
Reyndu alltaf að fara fram úr væntingum
Einhæfni er ekki líkleg til að viðhalda þeirri innri hvatningu og neista sem þú þarft að hafa. Þægindaramminn býður upp á einhæfni svo þú skalt gera þitt besta til að brjótast út úr honum og gera eitthvað alveg nýtt. Stúderaðu aðferðir annarra dropship verslana; skoðaðu vel hverjar skara fram úr og hvað þær gera öðruvísi en hinar. Jafnvel smæstu breytingar á persónulegum venjum og vinnuskipulagningu geta haft stór áhrif. Það eykur bæði sjálfstraust þitt og áhugann á verkefninu að finna hvernig þú stýrir því.
Komdu þér upp styrkjandi venjum
Þó þú sjáir það kannski ekki vel til að byrja með, ætti ekki að líða á löngu áður en þú ferð að tengja þínar eigin venjur við áhrif þeirra á frammistöðu þína. Þess vegna er afar mikilvægt að byggja upp góðar venjur sem koma til með að styrkja þig með tímanum. Margt farsælasta fólk veraldar á það sameiginlegt að það hefur komið sér upp rútínu og heldur sig við hana alla daga, t.d. að hefja daginn á réttan hátt með líkamsrækt, góðum morgunmat og jafnvel hugleiðslu fyrir daginn sem framundan er.
Verðlaunaðu sjálfan þig
Þegar þú vinnur hörðum höndum að því að byggja upp eigin rekstur er ekkert að því að verðlauna sig í hverju skrefi. Við mannfólkið bregðumst alltaf vel við hvatanum til að gera betur. Það er góð hugmynd að veita sér einhverja minniháttar umbun fyrir góða frammistöðu. Settu þér lítil markmið á milli stórra og verðlaunaðu sjálfa/n þig þegar hverju þeirra er náð.
Jákvæðni skiptir máli
Neikvæðni hefur áhrif á það hvernig þú nálgast markmiðin þín. Allur rekstur, líka dropshipp rekstur, nær betri árangri þegar jákvæðni er höfð að leiðarljósi. Það er samt ósköp eðlilegt að finna fyrir neikvæðni öðru hvoru. Ekki hunsa þá tilfinningu. Nýttu þér hana til að skoða rót hennar og hvernig þú getur leyst úr vandanum.