Dropship rekstur er eftirsóknarverður fyrir marga þar sem hann gerir fólki kleift að vinna á eigin forsendum. Það eina sem þarf er WiFi-tenging og þá er hægt að sinna vinnunni hvar sem er og hvenær sem er. Það besta við dropship reksturinn er að margra mati það að hann gefur færi á að byggja upp fyrirtæki frá grunni á einfaldan hátt. En hvað gerist þegar umsvifin aukast og reksturinn verður of stór fyrir eina manneskju að halda utanum? Eða ef þig vantar ákveðna sérfræðikunnáttu? Í þeim tilvikum getur verið gagnlegt að ráða starfsfólk í lausamennsku til þess að sinna ákveðnum verkefnum.
Hvert er hlutverk lausastarfsmanns?
Lausastarfsmaður er sjálfstætt starfandi, oftast sérfræðingur á sínu sviði. Þannig geta fyrirtæki ráðið til sín sérfræðing til að aðstoða með stór eða smá verkefni.
Nokkrar týpur lausastarfsmanna og hlutverk þeirra:
Grafískur hönnuður
: lógóhönnun, sjónræn vörumerking, auglýsingamyndir, ljósmyndun, hönnun og útlit vefsíðu og grafískur tölvupóstur
Aðstoðarmanneskja
: umsýsluverkefni, hleður upp eða uppfærir upplýsingar um vefsíðu, rannsóknir, þjónustuver
Vefhönnuður og forritari
: hanna og setja upp vefsíðu.
Textasmiður
: textaskrif fyrir vefsíðu, auglýsingar, markaðssetning með tölvupósti, samfélagsmiðlar, vörulýsingar og bloggfærslur
Myndbandaframleiðandi
: kynningarmyndbönd
Ljósmyndari
: atvinnuljósmyndir fyrir markaðsefni
Endurskoðandi
: yfirsýn yfir fjárhagslegar upplýsingar fyrirtækisins
Bókhaldari
: skráning og flokkaun viðskiptafærslna
Kostir við að ráða lausastarfsmann
Með því að ráða lausastarfsmann er hægt að minnka vinnuálag án skuldbindingar um langtímastarf. Þetta getur komið sér vel, sérstaklega í upphafi rekstursins.
Hér eru topp-ástæðurnar fyrir því að ráða lausastarfsmann
Verkið klárast hraðar
Það tekur tíma að stofna og reka fyrirtæki, jafnvel enn lengri en ella ef dropship reksturinn er aukavinna samhliða öðru starfi. Ef reksturinn verður of tímafrekur getur það létt álagi af þér að ráða inn lausastarfsmann tímabundið.
Aðgangur að hæfileikum sem þú hefur ekki
Það er fljótlegra að ráða grafískan hönnuð en að ætla sér sjálf/ur/t að læra fagið án grunnþekkingar eða reynslu. Önnur sérfræðisvið sem tekur langan tíma að læra inná eru t.d. vefhönnun, forritun, smáforritagerð og leitarvélahámörkun.
Þú ætlar í frí
Enginn getur unnið 365 daga á ári! Þegar þú þarft á fríi eða helgarfríi að halda frá daglegum rekstri er gott að hafa lausastarfsmann sem getur gripið inn í. Ef vöxtur fyrirtækisins gefur ástæðu til, er þó vert að íhuga hvort það sé betra á þessu stigi að ráða starfskraft til frambúðar. Lausastarfsmaður er þó góð lausn þegar fyrirvarinn er skammur. Það getur einnig verið gulls ígildi að geta leitað til starfsfólks sem þú hefur notað áður, sem þekkir reksturinn og vinnuferlana.
Bæta þjónustu við viðskiptavini
Viðskiptavinir netverslana vænta þess að fá skjóta og góða þjónustu þegar þeir þurfa að hafa samband við verslunina. Samkvæmt Microsoft segja 95% netviðskiptavina að góð þjónusta sé lykillinn að tryggð þeirra við vörumerkið. Það er nauðsynlegt að bjóða upp á þjónustu við viðskiptavini á skrifstofutíma, í það minnsta, en eigandi hefur ef til vill ekki tíma aflögu til að sjá um það. Þetta er hægt að leysa með því að ráða inn aðstoðarmanneskju sem sér um samskipti við viðskiptavini þegar þess þarf.
Hvar finnurðu lausastarfsfólk?
Hægt er að finna þó nokkuð margar netgáttir sem hafa milligöngu um ráðningu lausastarfsfólks. Þó er vert að taka fram að þær síður sem fjallað er um hér eru alþjóðlegar. Kosturinn við að nota netgáttir og milliliði er að þær nota flestar sjálfvirkt reikninga- og greiðslukerfi. Lausastarfsfólk fær þannig greitt fyrir þá vinnu sem það innir af hendi og fyrirtækið hefur yfirsýn yfir hvaða verkefni hafa verið unnin. Sumar gáttir nota eftirlitsforrit ef lausastarfsfólk er ráðið fyrir tímagjald. Lestu umsagnir annarra atvinnurekenda til að finna besta starfsfólkið.
Upwork
Upwork er hugsanlega vinsælasti milliliðurinn þegar kemur að ráðningu lausastarfsfólks. Síðan sjálf kallar sig "stærstu ráðningarstofuna á netinu" og ekki að ósekju, en hjá Upwork eru skráð um 12-14 milljón manns sem taka að sér verk í lausamennsku. Fyrirtækið sjálft hefur aðsetur í Bandaríkjunum og allir starfsmenn fá greitt í bandaríkjadölum en er notað af fyrirtækjum, rekstraraðilum og lausastarfsfólki um allan heim.
Lausamennskuþjónusta sem síðan býður upp á:
Hönnun og skapandi greinar
Skrifstofustörf og þjónustuver
Fjármál og bókhald
Sala og markaðssetning
Textagerð og þýðingar
Mannauðsstjórnun og starfmannaþjálfun
Lögfræðiþjónusta
Tölvur og tækni
Verkfræði og arkitektúr
Fiverr
Fiverr virkar á annan hátt en Upwork þar sem lausastarfsfólk býður í verkið þitt. Á Fiverr auglýsir lausastarfsfólk þjónustu sína og tiltekur verð og kostnað. Eins og nafnið gefur til kynna kosta verkefnin frá $5 en verðin eru mismunandi eftir stærð og umfangi verkefna. Fiverr er ísraelskur netvettvangur en er notaður um allan heim. Samkvæmt greiningum eru fyrirtækjanotendur um 5.5 milljón og skráðir lausastarfsmenn eru 830.000 talsins.
Lausamennskuþjónusta sem síðan býður upp á:
Grafík og hönnun
Stafræn markaðssetning
Textagerð og þýðingar
Myndefni og hreyfimyndir
Tónlist og hljóð
Forritun og tækni
Viðskipti (t.d. sýndaraðstoðarmaður, umsjón með netviðskiptum)
PeoplePerHour
PeoplePerHour er breskur vettvangur þar sem fyrirtæki geta óskað eftir lausastarfsmönnum og öfugt. Notendur síðunnar eru um 2 milljón talsins. Eins og nafnið gefur til kynna er starfsfólk ráðið á tímalaunum.
Lausamennskuþjónusta sem síðan býður upp á:
Tækni og forritun
Textagerð og þýðingar
Hönnun
Stafræn markaðssetning
Myndbönd, ljósmyndun og annað myndefni
Viðskipti (t.d. Brexit ráðgjöf, fjármálaaðstoð)
Tónlist og hljóð
Markaðssetning, vörumerki og sölumennska
Samfélagsmiðlar
MarketerHire
Þessi síða leggur áherslu á fagfólk í markaðssetningu. Það sem gerir þennan vettvang frábrugðinn öðrum er að það eru engar auglýsingar um störf eða hæfni og þú þarft ekki að taka viðtöl við hugsanlegt starfsfólk. MarketerHire sér um alla undirbúningsvinnu og staðfestir hæfni og hæfileika þeirra sem eru á skrá hjá þeim. Fyrirtæki geta óskað eftir markaðssérfræðingi með sérhæfingu á því sviði sem þörf er á, t.d. efnismarkaðssetningu, Amazon eða SEO. Vefsíðan finnur réttan lausastarfsmann og kemur á samskiptum. Algengt er að lausastarfsmenn fái greidda $80-160 á klukkustund vegna sérþekkingar sinnar og reynslu.
Freelancer
Freelancer er einn stærsti lausamennskuverkvangur heims og byggir, eins og Upwork, á tilboðskerfi. Fyrirtæki senda inn laus verkefni og lausastarfsfólk svarar með tilboði í verkið. Freelancer er ástralskt fyrirtæki en notað af fyrirtækjum og starfsfólki um allan heim. Síðan hefur um það bil 55 milljón notendur, jafnt fyrirtæki sem lausastarfsmenn.
Lausamennskuþjónusta sem síðan býður upp á:
Hönnun, miðlun og arkitektúr (t.d. leiklestur, myndbandavinnsla fyrir YouTube)
Vefsíður, tölvu- og hugbúnaður
Sala og markaðssetning
Viðskipti, bókhald, mannauðsmál og lögfræði.
Vöruúrval og framleiðsla
Gagnainnsláttur og skrifstofustörf
Textagerð og vefefni
Farsímar og tölvur
Þýðingar og tungumál
Viðskipti og þjónusta
Frakt, sendingar og flutningar
Fjarskipti
Verkfræði og vísindi
Lokaorð
Fyrir dropship rekstur getur það verið góð hugmynd að ráða inn lausastarfsfólk með sérfræðiþekkingu, hvort sem það er í stað- eða fjarvinnu, eftir því hvað hentar. Með því að nota milliliði á borð við síðurnar sem minnst er á hér að ofan er hægt að minnka áhættu í sambandi við greiðslur, vinnuframlag og samskiptavandamál. Kostnaðurinn við að nýta milliðiasíðurnar er viðráðanlegur, sérstaklega með tilliti til þess hvað þær einfalda ferlið. Í stuttu máli, þá mælum við eindregið með því að ráða lausastarfsfólk á réttum sviðum til að hjálpa dropship fyrirtækinu þínu að þrífast og dafna.
Tengdar greinar:
Stuttur leiðarvísir fyrir dropship rekstur í gegnum Amazon!
7 lykiltölur fyrir arðsaman dropship rekstur
Dropshipping vs samstarfsmarkaðssetning: hvaða viðskiptamódel er best?