Passívar tekjur eru vinsæll, en þó misskilinn máti til að þéna peninga. Margir virðast halda að passívar tekjur tikki sjálfkrafa inn án þess að nokkuð sé gert en það er langt frá því að vera satt.
Öll nýsköpun í atvinnulífinu krefst tíma og fjárfestingar. Hvernig eru passívar tekjur þá ólíkar venjulegu 9-5 starfi? Við skulum byrja á því að skoða hvers konar vinna skapar passívar tekjur og hvernig sú vinna á fátt sameiginlegt með skrifstofustörfum!
Hvað eru passívar tekjur?
Passívar tekjur eru laun sem fást fyrir vinnu sem hefur nú þegar verið innt af hendi. Þegar búið er að koma tekjulindinni á fót þarf oftast lágmarks fyrirhöfn til að fá tekjur fyrir verkefnið.
Til að byrja með er þetta eins og hvert annað fyrirtæki, það tekur tíma, fjármuni og fókus að koma starfseminni í gang. Markmiðið er þó að með tímanum, eftir því sem betur gengur, verði starfsemin straumlínulagaðri og eftir standi einföld og traust tekjulind. Það tekur í flestum tilfellum tíma, jafnvel nokkur ár að koma passívu tekjulindinni af stað en ef vel gengur skilar hún á endanum góðri arðsemi fyrir fjárfestinguna. Sem dæmi má taka YouTube rás sem hleður upp áhugaverðum myndböndum. Það tekur í flestum tilfellum 1-2 ár að byggja upp efnistök og vinnubrögð og fá nógu marga áskrifendur að rásinni en þegar grunnvinnunni er lokið, er hægt að fá tekjur af því að framleiða svo lítið sem 1 myndband á viku.
Kostir við passívar tekjur
Fjárhagslegur stöðugleiki
Tækifæri til að vinna með þitt áhugasvið
Staðsetning skiptir ekki öllu máli
Starfið er jafn skemmtilegt og þú gerir það!
5 Bestu hugmyndirnar fyrir passíva tekjumöguleika árið 2021
Ertu spennt/ur fyrir hugmyndafræðinni? Hér eru nokkrir frábærir möguleikar til að skoða:
Íbúðaleiga
Fjárfesting í fasteign er ein af elstu passívu tekjuleiðunum sem þekkjast en það er af því að þetta virkar. Ef þú liggur á sjóði í banka getur verið hagnýtt að kaupa húsnæði með það í huga að leigja það út. Þegar fasteignamarkaðurinn stendur vel er hægt að selja fasteignina aftur með hagnaði.
Námskeiðahald
Það eru margir sem vilja bæta tæknikunnáttu eða fá upplýsingar á ákveðnu sviði. Fólk með sérþekkingu sem getur nýst öðrum er í lykilstöðu til að útbúa námsefni eða halda námskeið og fá um leið tekjur. Á þessum tæknitímum er einfalt að setja upp e-námskeið, taka upp fyrirlestra eða útbúa myndbönd um flest sem manneskjan gæti mögulega verið forvitin um! Hér er gott að nota tengslanet til að kynna efnið og fá þátttakendur en einnig er hægt að nota síður á borð við Udemy til að finna hugsanlega kúnna.
Sammarkaðssetning
Þetta er einföld tekjuleið fyrir fólk sem hefur fylgjendur á samfélagsmiðlum. Langoftast er um að ræða áhrifavald sem kynnir vörur fyrir fylgjendum sínum og fær lítinn hluta af ágóða sölu í gegnum síðuna.
Smáforrit
Hér þarf mögulega nokkuð stóra fjárfestingu í byrjun, bæði hvað varðar tíma, fjármagn og hæfileika en til lengri tíma litið gæti þetta borgað sig. Markaðssetning er líka lykilatriði en ef smáforritið nær vinsældum þarf ekki að spyrja að leikslokum. Tekjumöguleikar smáforrita liggja í niðurhali og auglýsingum. Vinsælustu týpur smáforrita á markaðnum eru leikir og forrit sem auðvelda stjórnun og rekstur.
Dropshipping
Nánast allir geta komið á fót og rekið dropship-verslun. Þetta er nýr verslunarmáti sem þarf hvorki lager né verslunarhúsnæði, heldur fer allt fram í gegnum netið á þínu eigin vefsvæði og fyrir fólk með nef fyrir markaðssetningu getur þetta verið góð tekjulind. Þessi möguleiki hentar fyrir þau sem hafa áhuga á netviðskiptum en hafa ekki möguleika á, eða vilja ekki leggja út í miklar fjárfestingar í byrjun.