7 góð ráð fyrir viðskiptaímynd í dropshipping rekstri

dropshippingxl intro blog

Viðskiptaímynd (e. brand) er öflug leið til að skilja dropship verslunina þína frá keppinautunum. Netið er gríðarstór staður og það er auðvelt að villast í hafsjó netverslana sem þar má finna. Þú þarft þó ekki að bíða eftir því að viðskiptavinirnir hafi uppá þér, því þú getur hjálpað þeim að finna þig og vörurnar þínar.

Fyrst af öllu skulum við athuga betur skilgreininguna á viðskiptaímynd. Í raun mætti segja að viðskiptaímyndin sé orðspor fyrirtækisins. Það eru skilaboðin sem þú sendir, vörurnar sem þú selur, rekstrarmenning og framkoma við viðskiptavini. Ímyndin hefur áhrif á tilfinningu viðskiptavinarins gagnvart vöru, þjónustu eða fyrirtækinu sjálfu.

Athugið líka að ímyndin er meira en bara hönnun firmamerkis og slagorða. Þekking á einföldum undirstöðuatriðum viðskiptaímyndar getur haft talsverð áhrif á gengi rekstursins. Viðskiptavinir sem fá jákvæða mynd af fyrirtækinu eru líklegri til að treysta því og kaupa vörur frá því. Hér ætlum við að fara yfir 7 atriði fyrirtækjaímyndar sem gott er að þekkja þegar lagt er upp í dropship rekstur.

1. Skerðu þig úr meðal keppinautanna

Eitt af því sem gefur forskot á keppinautanna er einstök þjónusta. Þó tvö fyrirtæki selji sömu vöruna eru ákveðnir þættir sem geta haft áhrif á viðskiptavininn og val hans um hvar hann kaupir vöruna. Sem dæmi bjóða McDonald's og Burger King upp á svipaðan skyndibita en það er munur á því hvernig hamborgaraætur upplifa þessa tvo staði. Báðar hamborgarakeðjurnar hafa sína eigin ímynd og sérstöðu.

Til að finna út hver sérstaða þíns fyrirtækis er, skaltu byrja á því að svara eftirfarandi 3 spurningum:

1. Hver ert þú, nákvæmlega?

Hverjir stofna fyrirtækið, hver er ástríða þeirra, hver er framtíðarsýnin, hver er tilgangur fyrirtækisins, umfram fjárhagslegan ágóða?

2. Hvað gerir þú?

Þekktu þinn hluta markaðarins; hvert er þitt fag og hvar passa vörurnar þínar inn?

3. Hvaða máli skiptir það?

Viðskiptavinir vilja sjá fyrirtækið þitt sem eitthvað nýtt og mikilvægt. Af hverju ertu best/ur á þínu sviði?

Veldu vöruflokk

Þrengdu viðskiptavinahópinn með sérhæfingu á ákveðnu sviði. Sviðið getur afmarkast af vöruflokkum, verðbili, þjónustustigi eða grundvallarviðhorfum rekstrarins. Dropshipping með vidaXL þýðir að hægt er að sérhæfa sig í ákveðnum vöruflokkum. Þetta gætu t.d. verið reiðhjólahlutir, barnaleikföng eða gæludýravörur.

Dæmi

Ef netverslunin selur gæludýravörur, er hægt að sérhæfa hana í vörum fyrir smáhunda. Það er hægt að gera með því að taka inn vörur sem henta aðeins fyrir smærri hundategundir og setja inn fræðslumola og blogg um mismunandi hundategundir og umhirðu þeirra. Til að þrengja fókusinn enn frekar er hægt að skapa sérstöðu með verðbili, t.d. með sölu á ódýrum dýravörum eða lúxusvörum.

2. Þekktu viðskiptavininn

Ef þú veist hver viðskiptavinurinn er, er auðveldara að selja honum vöruna. Gerðu prófíl af týpunni sem kemur til með að kaupa vörurnar þínar. Instagram er frábær upphafspunktur. Finndu áhrifavalda sem passa við þinn stíl og sem nota nú þegar eða myndu líklega nota vörurnar sem þú selur. Þú finnur þá með því að leita í hashtags sem tengjast þeim vörum og vöruflokkum sem þú ætlar þér að vinna með.

Skrifaðu hjá þér niðurstöður úr athugunum, formlegum og óformlegum. Svaraðu þessum spurningum um markviðskiptavini þína:

1. Hvernig er persónuleiki þeirra? Eru þeir menntaðir, óþolinmóðir, hvatvísir, hugsi?

2. Hver eru áhugamál þeirra?

3. Búa þeir í húsi eða í íbúð?

4. Þekkja þeir það sem er fínt í lífinu?

Þetta er hluti af því að þekkja samkeppnisstöðu sína.

Dæmi

Kíkjum aftur á hugmyndina um að selja vörur fyrir smáhundaeigendur. Búa þeir í borg eða úti á landi? Eiga þeir önnur gæludýr? Lifa hundarnir þeirra lúxus lífsstíl? Búa litlu hundarnir í íbúð eða stóru húsi?

3. Finndu markhópinn þinn

Ef þú þekkir viðskiptavininn geturðu byggt ímynd fyrirtækisins og þjónustu þess í kringum hann. Íhugaðu hvernig þú munt standa að samskiptum við hugsalega viðskiptavini; þarf viðskiptavinurinn síðu með góðum og ígrunduðum upplýsingum eða vill hann notfæra sér einfalda og hraða vörugátt?

Hugleiddu þessi atriði:

1. Hvenær og hvar kaupir viðskiptavinurinn venjulega vörur sínar?

2. Hvaða samfélagsmiðla nota þeir?

3. Á hvaða vörum hafa þeir mestan áhuga að kaupa?

4. Hvaða samskiptatón kemur þú til með að nota við þá?

4. Samræmi

Þegar kjarnahugmyndir og gildi fyrir fyrirtækið og markhópinn eru komin á hreint, er það sú ímyndarstefna sem fyrirtækið ætti að halda sig við. Það er best að samræma tóninn í öllum samskiptum við viðskiptavini, hvort sem þeir skoða netverslunina, kynningarefni á samfélagsmiðlum eða tölvupósta frá þér.

Ef ímyndartónninn er formlegur og kurteis ætti allt efni í nafni rekstursins að vera í samræmi við það. Ef ímyndartónninn er léttur og vinalegur búast viðskiptavinirnir alltaf við því að heyra frá þér á þann hátt. Fyrirtæki er eins og manneskja; við venjumst því hvernig fólk hegðar sér og talar. Ef fyrirtæki tileinkar sér nýjan persónuleika í hverri viku, er hætta á að viðskiptavinir ruglist og missi traust.

Íhugaðu að útbúa skjal með lykilatriðum viðskiptaímyndarinnar sem hægt er að nota til að samræma útsent efni á öllum miðlum.

5. Virkjaðu tilfinningar

Tilfinningar eru lykillinn að viðskiptatryggð. Viðskiptavinirnir eru mannlegir og manneskjur bregðast við tilfinningaríkum samskiptum. Við höldum tryggð við fyrirtæki sem við finnum fyrir einhvers konar tengslum við. Tengslin koma með langtímasamskiptum við fyrirtækið og hvernig það kemur fyrir.

Sem dæmi má nefna McDonald's auglýsingaherferð frá 2012, sem sýnir mann hefja sinn fyrsta dag í nýju skrifstofustarfi. Eftir stressandi morgun með pappírsvinnu og kynningum fer hann á McDonald's í hádegismat. Ímynd McDonalds sem eitthvað kunnuglegt og jákvætt var það sem hann þurfti til að lífga upp á daginn.

6. Vertu auðþekkjanleg/ur

Gerðu viðskiptavinum þínum auðvelt að þekkja þig á færi. Með því er átt við að allt efnið sem sett er fram á samfélags- eða auglýsingamiðlum ætti að hafa sömu áherslur. Sama lógó, sama slagorð, sömu litir og sömu markaðsskilaboð.

Þetta er einfalt ráð sem þó getur reynst dýrmætt, því þetta kemur í veg fyrir misskilning og rugling þegar fólk sér efni og auglýsingar frá þér.

7. Fjárfestu í myndefni

Sjónræn ímynd á borð við lógó og grafík er ekki síður mikilvæg þegar kemur að markaðssetningu. Viðskiptavinir búast við gæðum og því eru netverslanir og framsetning þeirra í stöðugri þróun.

Gæði vefsíðuhönnunar, einföld notendaupplifun, lógóhönnun og myndræn markaðssetning á samfélagsmiðlum er það sem neytendurnir sjá frá þér. Instagram-notendur búast til dæmis við faglega teknum ljósmyndum og skemmtilegu umfjöllunarefni frá fyrirtækjum og markaðsaðilum. Óháð stærð fyrirtækisins vilja viðskiptavinir sjá efni sem vekur hrifningu, sem fylgir nýjustu straumum á netinu og auðvitað vel unnar myndir.

Með uppgangi TikTok, Youtube og Instagram er enginn tími fyrir lággæða eða úrelt efni hjá notendum samfélagsmiðla. Ef ætlunin er að byrja dropship reksturinn á háu nótunum, er góð hugmynd að ráða ljósmyndara, grafískan hönnuð, samfélagsmiðlasérfræðing eða markaðssérfræðing fyrir uppsetningu sjónræns efnis. Ef þú vilt sjá sjálf/ur um sjónræna hlið mála, er einfalt að nota myndabanka og kennslumyndbönd um ljósmyndun og myndbandavinnslu. Notaðu góða DSLR myndavél eða símamyndavél með bestu hugsanlegu upplausn.

dropshippingxl intro blog